Almennir viðskiptaskilmálar Netters ehf.

 

Eftirfarandi samningsskilmálar eru almennir viðskiptaskilmálar Netters ehf., sem gilda um öll viðskipta- og samningskjör Netters á hverjum tíma.

 

Samningsskilmálar þessir taka gildi þann 29. nóvember 2019.

 

1. Skilgreiningar

Birgi er aðili sem selur Netters búnað sem ætlaður er til endursölu.

Búnaður er samheiti fyrir vél- og hugbúnað.

Sértækir viðskiptaskilmálar eru viðskiptaskilmálar sem eiga við um sérstakar vörur eða þjónustu sem Netters kann að bjóða.

Uppfærslugjald er verð sem greitt er fyrir uppfærslu á hugbúnaði samkvæmt samningi.

Vélbúnaður er hvers kyns tæki sem notuð eru til gagnavinnslu og skyldra nota.

2. Gildissvið viðskiptaskilmála og breytingar

Viðskiptaskilmálar þessir gilda um öll viðskipti og samskipti Netters ehf. við aðra aðila um kaup á vöru(m) og/eða þjónustu. Skilmálarnir gilda um öll þau atriði og alla þá þætti sem efni þeirra nær til. Þeir eru ófrávíkjanlegir og skuldbinda bæði Netters og gagnaðila nema um annað sé samið með skriflegum hætti. Breytingar á skilmálum þessum og öðrum samningum skulu aðeins gildar ef þær eru samþykktar af Netters með skriflegum hætti.

Netters áskilur sér rétt til þess að breyta skilmálum þessum ef nauðsyn krefur. Allar efnislegar breytingar verða kynntar viðskiptavinum með 30 daga fyrirvara.

Aðrir, sértækir viðskiptaskilmálar kunna jafnframt að eiga við um viðskipti Netters og viðskiptavina félagsins. Slíkir sértækir viðskiptaskilmálar kunna að vera viðskiptaskilmálum þessum til frekari fyllingar eða kveða á um önnur réttindi og skyldur Netters og viðskiptavina.

Ákvæði samninga og samþykktra tilboða ganga framar viðskiptaskilmálum þessum.

3. Samningar

3.1 Skuldbindingargildi samninga og tilboða

Samningur milli Netters og viðskiptavinar er kominn á þegar tilboð, samningur eða samningsviðauki hefur verið undirritað(ur) eða samþykkt(ur) skriflega af báðum aðilum með öðrum hætti, t.a.m. með samþykki tilboðs í tölvupósti.

3.2 Gildistími tilboða

Gildistími tilboða er ákveðinn af Netters hverju sinni. Netters getur afturkallað tilboð hverju sinni áður en þau hafa verið samþykkt formlega af viðskiptavini. Netters er ekki bundið við tilboð eftir að þau hafa verið afturkölluð eða eftir að gildistími þeirra er liðinn.

3.3 Gildistími samninga

Ef ekki er sérstaklega kveðið á um annað í samningi skal samningur gilda í eitt ár og vera óuppsegjanlegur á gildistíma. Ef samningi er ekki sagt upp að þeim tíma liðnum í samræmi við þann uppsagnarfrest sem um hann gildir, skal samningurinn framlengjast um eitt ár í senn en vera uppsegjanlegur hvenær sem er á þeim tím í samræmi við þann uppsagnarfrest sem um hann gildir.

3.4 Uppsagnarfrestur

Almennur uppsagnarfrestur samninga skal vera 3 mánuðir, sé ekki kveðið á um annað í viðkomandi samningi. Tilkynning um uppsögn samnings skal vera skrifleg og send gagnaðila með sannanlegum hætti. Uppsögn samnings tekur gildi næstu mánaðamót eftir að hún berst. Byrjar þá uppsagnarfrestur að líða.

4. Þjónusta og sala

 

4.1 Verksamningar

Með verksamningum er samið um vinnu á tilteknu verki eða verkum.

Verksamningar eru í gildi á meðan slík verk eru unnin. Þeir eru óuppsegjanlegir nema samið hafi verið um annað.

Almennt er samið um endurgjald fyrir verksamninga hverju sinni, ýmist í samningi eða í tilboði. Hafi slíkt ekki verið gert, fer um verðlagningu eftir verðskrá Netters hverju sinni. Verð kann að taka breytingum á samningstíma, sbr. ákvæði 8. gr.

4.2 Þjónustusamningar

Í þjónustusamningum er kveðið á um tiltekna þjónustu sem Netters veitir viðskiptavini, ýmist í skamman eða lengri tíma.

Með þjónustusamningum skuldbindur Netters sig almennt til þess að stefna að tilteknum markmiðum um þjónustustig. Í slíkum samningum felst hins vegar almennt ekki loforð af hálfu Netters um tiltekinn árangur eða ávinning, nema slíkt sé sérstaklega tekið fram.

Samið er um endurgjald fyrir þjónustusamninga hverju sinni, ýmist í samningi eða tilboði. Hafi slíkt ekki verið gert, fer um verðlagningu eftir verðskrá Netters hverju sinni. Verð kann að taka breytingum á samningstíma, sbr. ákvæði 8. gr.

 

5. Hýsing

5.1 Hýsingarsamningar

Með hýsingarsamningum er samið um hýsingu á rafrænum gögnum, vélbúnaði og/eða rekstur á upplýsingatæknikerfum. Samið er um endurgjald fyrir hýsingarsamninga hverju sinni, ýmist í samningi eða tilboði. Hafi slíkt ekki verið gert, fer um verðlagningu eftir verðskrá Netters hverju sinni. Verð kann að taka breytingum á samningstíma, sbr. ákvæði 8. gr.

 

5.2 Ábyrgð viðskiptavina á hýstum gögnum

Viðskiptavinir bera ábyrgð á því að gögn sem Netters hýsir þá brjóti ekki gegn lögum, réttindum þriðja aðila eða gegn skilmálum þessum eða öðrum samningum viðskiptavinar og Netters. Brjóti gögn viðskiptavinar gegn framangreindum réttindum er Netters heimilt að grípa til allra þeirra aðgerða sem nauðsynlegar reynast til að stöðva slík brot, þ.m.t. að fjarlægja eða hindra aðgang að gögnum í samræmi við ákvæði laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

 

5.3 Óheimil háttsemi

Óheimilt er viðskiptavinum að nota þjónustu Netters á nokkurn hátt í ólögmætum eða skaðlegum tilgangi eða í tilgangi sem brýtur gegn almennu velsæmi. Óheimilt er ennfremur að hýsa eða gera aðgengilegt efni sem er ólöglegt, skaðlegt eða brýtur gegn velsæmi eða réttindum annarra á nokkurn hátt.

Eftirfarandi háttsemi er m.a. óheimil:

Að trufla, skerða eða hafa á nokkurn hátt áhrif á notkun eða hagsmuni annarra viðskiptavina Netters eða annarra þriðju aðila, með hvaða aðferðum sem er, þ.m.t. með aðferðum á borð við netárásum, óumbeðin fjöldasamskipti við aðra, skönnun vefþjóna eða netumhverfis, dreifing eða notkun sjálfvirks hugbúnaðar, forrita eða kóða í þeim tilgangi að öðlast óheimilan aðgang að umhverfi Netters, viðskiptavina Netters eða annarra aðila.

Að trufla notkun annarra aðila sem nýta sér hýsingarþjónustu eða aðra þjónustu Netters, aðhafast nokkuð það sem veldur óeðlilegu álagi á þjónustu, tölvukerfi og/eða búnað Netters eða nokkuð það sem truflar aðgengi annarra notenda að þjónustu Netters.

Að villa á sér heimildir í samskiptum, hvort sem um er að ræða tölvupóstsamskipti eða önnur samskipti.

Að reyna á einhvern hátt að nálgast, hlaða niður eða komast að á annan hátt undirliggjandi kóða í hugbúnaði og/eða netumhverfi sem Netters nýtir eða býður.

Að trufla, skerða eða nýta þjónustu Netters með einhverjum slíkum hætti að það hafi neikvæð eða skaðleg áhrif á Netters, eignir eða hagsmuni Netters eða hugbúnað eða netkerfi þau sem Netters býður eða tengist með öðrum hætti.

Netters áskilur sér rétt til að ákvarða sjálft og alfarið upp á sitt einsdæmi hvort og hvenær tilteknar athafnir teljast brjóta í bága við framangreint.

 

6. Hugbúnaður

6.1 Sala og notkun hugbúnaðar

Netters afhendir og selur viðskiptavinum sínum afnotarétt að hugbúnaði. Um nýtingu hugbúnaðar gilda jafnan sértækir viðskipta- og notkunarskilmálar, sem stafa ýmist frá Netters eða frá öðrum eigendum eða rétthöfum hugbúnaðarins. Í sölu á hugbúnaði felst aðeins réttur til notkunar á hugbúnaðinum, en ekki framsal á eignarrétti að hugbúnaðinum til viðskiptavinar.

Óheimilt er viðskiptavinum með öllu að framselja nokkur réttindi sem tengjast hugbúnaði, afrita hugbúnað, breyta honum, kanna grunnkóða hans, taka í sundur hugbúnaðinn, fjarlægja forrit úr honum eða leyfa fleiri notendum að fá afnot af honum en samningur við Netters kveður á um, nema sérstaklega sé samið um annað með skriflegum hætti við Netters.

6.4. Nytjaleyfi

Netters selur viðskiptavinum sínum nytjaleyfi að hugbúnaði. Með slíku leyfi er viðskiptavini veitt leyfi til að nýta hugbúnað fyrir tiltekinn fjölda notenda, fyrir tiltekinn fjölda vélbúnaðar í afmarkaðan tíma. Viðskiptavini er aðeins heimilt að nota þann hugbúnað á þeim vélbúnaði sem slíkt nytjaleyfi tilgreinir og í þeim mæli sem kveðið er á um í samningi við Netters.

Greitt er leyfisgjald fyrir nytjaleyfi í samræmi við réttindi og þjónustuþætti sem kveðið er á um í samningi milli viðskiptavinar og Netters. Í slíkum samningi kann eftir atvikum að vera kveðið á um gjöld fyrir uppfærslur hugbúnaðar og uppsetningu. Verð kann að taka breytingum á samningstíma, sbr. ákvæði 8. gr.

6.5 Uppfærslur

Viðskiptavinir eiga ekki sjálfkrafa rétt til þess að fá uppfærslur á hugbúnaði sínum eða yfirfærslur í nýjar útgáfur hugbúnaðar, en semja má um slíkan rétt gegn greiðslu.

Gjöld vegna uppfærslu hugbúnaðar samanstanda almennt af sérstakri greiðslu fyrir nýja uppfærslu hugbúnaðar, sem og vinnu við að innleiða uppfærslu hugbúnaðarins. Er gjaldfært fyrir hvort tveggja, nema samið sé sérstaklega um annað.

7. Vélbúnaður

7.1 Kaup á vélbúnaði

 

Þegar viðskiptavinur kaupir vélbúnað, færist aðeins eignarréttur að vélbúnaðinum til viðskiptavinar. Í slíkum kaupum fylgir ekki eignarréttur að þeim hugbúnaði sem kann að vera á vélbúnaðinum, heldur aðeins takmarkaðan afnotarétt að hugbúnaðinum, eftir atvikum og samningum hverju sinni.

 

7.4 Eignarréttarfyrirvari

Vélbúnaður sem seldur er viðskiptavini er eign Netters uns hann hefur verið greiddur að fullu.

 

8. Endurgjald og greiðslufyrirkomulag

 

8.1 Endurgjald

 

Endurgjald fyrir þjónustu Netters og seldar vörur skal vera í samræmi við gildandi gjaldskrá Netters fyrir viðkomandi þjónustu og vörur, nema samið sé um annað sérstaklega með skriflegum hætti.

8.2 Breytingar á gjaldskrá og gjöldum samkvæmt samningum

Ef ekki hefur verið samið um annað sérstaklega, áskilur Netters sér rétt til þess að endurskoða reglulega öll gjöld sem viðskiptavinur kann að verða krafinn um, þ.m.t. nytjaleyfi, leyfisgjöld, uppfærslugjöld og þjónustugjöld á grundvelli þeirra þátta sem mestu ráða um verðlagningu Netters hverju sinni, jafnvel þótt kveðið hafi verið á um tiltekin verð í samningi eða tilboði til viðskiptavinar.

Kunna því mánaðarleg gjöld vegna afnota og/eða endursölu á hugbúnaði eða öðrum vörum eða þjónustu sem keypt er af birgja á samningstíma að taka breytingum vegna gengisbreytinga á þeim gjaldmiðli sem innkaup eiga sér stað í, sem og vegna breytinga á gjaldskrá viðkomandi birgis. Almenn verðskrá Netters er ennfremur endurskoðuð reglulega með tilliti til breytinga á kostnaði. Þá eru gjöld samkvæmt samningum almennt uppfærð reglulega með hliðsjón af verðbólguþróun. 

 

8.3 Aukaverk

 

Aukaverk eru þau verk sem ekki falla innan samnings. Netters mun gera viðskiptavini reikning fyrir öll aukaverk samkvæmt tímagjaldi Netters í samræmi við gjaldskrá Netters eins og hún er á hverjum tíma, ef ekki hefur verið samið um annað í samningi.

Ef þörf krefur, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að viðskiptavinur verði fyrir tjóni, er Netters heimilt að grípa til nauðsynlegra aðgerða án þess að afla fyrst samþykkis viðskiptavinar. Slík verk skulu teljast til aukaverka í ofangreindum skilningi.

8.4 Útlagður kostnaður Netters

Kalli vinna samkvæmt samningi eða aukaverk á útlagðan kostnað eða kostnað vegna ferðalaga af hálfu Netters eða starfsmanna félagsins, mun viðskiptavinur krafinn um endurgreiðslu slíks kostnaðar.

 

8.5 Reikningar

 

Reikningar sem Netters sendir viðskiptavinum eru almennt sundurliðaðir og studdir fylgiskjölum til að sannreyna megi þá. Gjalddagi reikninga er 14 dögum eftir útgáfu þeirra. Dráttarvextir samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu leggjast ofan á gjaldfallnar kröfur allt til greiðsludags þeirra.

Athugasemdir skulu gerðar við útgefna reikninga innan 10 daga frá útgáfu þeirra en teljast ella samþykktir.

 

9. Hugverkaréttindi

9.1 Hugbúnaður Netters

Þegar Netters selur viðskiptavini eigin hugbúnað er Netters einn eigandi alls höfundaréttar að hugbúnaðinum, auk allra annarra eignarréttinda sem honum kunna að tengjast, þ.m.t. vörumerkjaréttar, hönnunarréttinda, einkaleyfisréttinda, sérþekkingu, atvinnuleyndarmála og öðrum réttindum er kunna að tengjast hugbúnaðinum.

 

9.2 Hugbúnaður í endursölu

 

Þegar Netters selur viðskiptavini hugbúnað í endursölu, er sá aðili sem veitir Netters réttindi til endursölunnar eigandi höfundarréttar og hvers kyns réttinda sem honum kunna að tengjast, þ.m.t. vörumerkjaréttar, hönnunarréttinda, einkaleyfisréttinda, sérþekkingu, atvinnuleyndarmála og öðrum réttindum er kunna að tengjast hugbúnaðinum.

 

9.3 Takmörkuð réttindi til hugbúnaðar og annarra hugverka

 

Samningar viðskiptavina og Netters fela ekki í sér framsal á þeim réttindum sem greinir í 9.1 og 9.2, að öðru leyti en því sem tekið er fram berum orðum í gildum samningi milli aðilanna. Slíkir samningar skulu ekki fela í sér nýtingarrétt að neinum þeim vörumerkjum sem Netters eða aðrir eigendur hugverkaréttinda eiga.

 

9.4 Önnur atriði

 

Ef hugbúnaður eða önnur verk í skilningi höfundalaga hafa orðið til á grundvelli samvinnu og jafnra framlaga Netters og viðskiptavinar skulu báðir aðilar eiga höfundarétt að verkinu og er þá báðum aðilum frjálst að nota og selja verkið með hvaða hætti sem er, enda sé gætt trúnaðar um trúnaðarupplýsingar.

Ef hugbúnaður eða önnur verk hafa alfarið verið unnin, hönnuð eða þróuð af öðrum aðila, er viðkomandi verk eign þess aðila, nema um annað hafi verið samið sérstaklega.

Netters er réttur eigandi eða leyfishafi að öllum þeim verkum og hugbúnaði sem viðskiptavinum er veittur aðgangur eða afnotaleyfi að. Komi upp sú staða að óvissa skapist um rétt Netters til slíkra verka og hugbúnaðar, getur Netters annaðhvort breytt þeim, veitt viðskiptavini aðgang eða afnot af öðrum hugbúnaði eða verkum eða samið um áframhaldandi not verkanna. Viðskiptavini er skylt að verða við tilmælum Netters í slíkum tilfellum um að hætta notkun hugbúnaðar eða annarra verka, uns leyst hefur verið úr slíkum ágreiningi.

Óheimilt er með öllu að veita öðrum aðilum aðgang að hugbúnaði, verkum eða öðrum hugverkum sem Netters lætur viðskiptavini í té með nokkrum hætti.

Hugbúnaður og/eða verk sem Netters fær viðskiptavini er aðeins fenginn viðskiptavini til tímabundinna, takmarkaðra og skilyrtra afnota og er ekki eign hans að neinu leyti. Heimild viðskiptavinar að slíkum hugbúnaði og verkum er bundin því skilyrði að greitt sé umsamið endurgjald fyrir afnotin og að afnotin fari fram í samræmi við þessa eða aðra skilmála Netters, samninga, tilboð, persónuverndarstefnu, sem og lög og reglur.

Fari notkun ekki fram með ofangreindum hætti er Netters heimilt að afturkalla afnotaheimild viðskiptavinar og banna frekari notkun hugbúnaðarins eða verkanna.

 

10. Ábyrgð Netters

Netters ábyrgist að þjónusta og búnaður sé í samræmi við samning við viðskiptavin, enda hafi notkun búnaðar ávallt verið í samræmi við kröfur framleiðanda og tilmæli Netters.

Ábyrgðartími Netters á búnaði og þjónustu er almennt eitt ár frá afhendingu, enda hafi viðskiptin farið fram sem hluti af atvinnurekstri viðskiptavinar.

10.1 Ábyrgð vegna þjónustu og hýsingar

Netters ábyrgist að þjónusta sé fullnægjandi og í samræmi við samning við viðskiptavin.

Netters ábyrgist ekki að afrit sem tekin eru af gögnum séu ávallt gallalaus. Netters ber heldur ekki ábyrgð á atvikum eða tjóni sem rekja má til slits á vélbúnaði eða bilunum. Þá ber Netters ekki ábyrgð á tjóni sem kann að verða vegna gagnataps niðritíma búnaðar, eða vegna tafa á þjónustu. Netters ber ekki ábyrgð á tjóni sem viðskiptavinur eða þriðji aðili veldur.

 

10.2 Ábyrgð vegna hugbúnaðar

 

Netters ábyrgist að staðlaður hugbúnaður virki eftir uppsetningu í samræmi við kynningarefni vegna hugbúnaðarins, enda hafi útgáfa hugbúnaðar ekki breyst frá kaupum og vélbúnaður, stýrikerfi og annar hugbúnaður í samræmi við lýsingar og tilmæli framleiðanda hugbúnaðarins.

Þegar Netters er endursöluaðili hugbúnaðar gilda sömu notendaskilmálar og ábyrgðartakmarkanir gagnvart viðskiptavini og framleiðandi hugbúnaðarins hefur sett og látið fylgja hugbúnaðinum.

Netters ábyrgist ekki að hugbúnaður verði laus við truflanir eða villur. Vera kann að hugbúnaður þarfnist uppfærslu til að halda áfram virkni og vera laus við villur. Gjaldfært er vegna slíkra uppfærslna og vinnu við uppfærslu hugbúnaðar í samræmi við verðskrá Netters.

Öll notkun hugbúnaðar er á ábyrgð viðskiptavinar sjálfs. Netters ábyrgist ekki að hugbúnaður virki til tiltekinna nota eða virki í tilteknu umhverfi, nema slíkt sé sérstaklega tilgreint í samningi. Engin ábyrgð er tekin á hugbúnaði ef viðskiptavinur eða þriðji aðili gerir breytingar á hugbúnaðinum eða tækniumhverfi án skriflegs samþykkis Netters.

 

11. Ábyrgð viðskiptavinar

Viðskiptavinur ber ábyrgð á tilmælum, upplýsingum og leiðbeiningum sem hann eða starfsmenn hans gefa Netters. Ber viðskiptavinur ennfremur ábyrgð á því að slíkar upplýsingar og leiðbeiningar séu réttar.

Viðskiptavinur ábyrgist að notkun hugbúnaðar og vélbúnaðar brjóti ekki gegn lögum eða réttindum annarra.

Viðskiptavinur ber ábyrgð á því ef búnaður í eigu Netters skemmist eða eyðileggst í meðförum hans.

 

12. Ábyrgðartakmarkanir

Netters ábyrgist ekki tiltekinn árangur af notkun hugbúnaðar, annarra vara eða þjónustu. Viðskiptavinur á ekki kröfu á hendur Netters vegna meints skorts á eiginleikum keyptra vara eða þjónustu, enda hafi hann haft kost á að kynna sér eiginleika hins keypta sjálfur, hvort heldur sem er fyrir milligöngu eða með aðstoð Netters eða með upplýsingum frá öðrum aðilum.

Ábyrgð Netters nær ekki til kostnaðar vegna endurheimtu gagna.

Viðskiptavini er óheimilt að fá þriðja aðila til að sinna þjónustu er varðar þá þjónustuþætti sem samningar hans við Netters kveða á um. Netters ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að hljótast af slíkri vinnu.

Netters ber ekki ábyrgð á óbeinu tjóni viðskiptavinar, af hvaða ástæðu sem slíkt tjón kann að hljótast, heldur aðeins á því tjóni sem gera má ráð fyrir að sé bein afleiðing af vanefndum. Þá ber Netters aldrei ábyrgð á rekstrartapi viðskiptavinar eða þriðja aðila, né afleiddu tjóni af neinu tagi.

Þá ber Netters aldrei ábyrgð á tjóni sem verður á fólki, fasteignum eða lausafé og kann að stafa af búnaði eða þjónustu sem Netters hefur veitt, nema slíkt tjón verði rakið til stórfellds gáleysis eða ásetnings af hálfu Netters eða starfsmanna Netters.

Heildarábyrgð Netters vegna hvers konar mistaka, vanrækslu, truflana, villna, tafa, tjóns eða galla sem verður í tengslum við samning aðila, skal takmarkast við jafnvirði þeirrar þóknunar sem viðskiptavinur hefur þegar greitt til Netters fyrir þá þjónustu, hugbúnað eða vélbúnað sem tjónið varðar og tengist, á síðustu tveimur mánuðum fyrir atvik það sem orsakaði tjónið.

 

13. Skaðleysi

Viðskiptavinur ábyrgist að fara að lögum og reglum, auk þess að virða réttindi þriðja aðila og brjóta ekki gegn slíkum réttindum, af hvaða tagi sem er. Verði Netters fyrir einhverju tjóni vegna slíkra brota, er viðskiptavinur skuldbundinn til að halda Netters skaðlausu gegn slíku tjóni.

14. Óviðráðanleg atvik

Hvorki Netters né viðskiptavinur á rétt til bóta á hendur gagnaðila ef vanefndir orsakast af óviðráðanlegum eða ófyrirséðum atvikum, sem ekki voru til staðar við samningsgerð.

15. Vanefndir og vanefndaúrræði

Hvers kyns brot Netters eða viðskiptavinar á skilmálum þessum eða samningum þeirra á milli teljast til vanefnda. Netters áskilur sér rétt til að hætta að veita viðskiptavini þjónustu 10 dögum eftir að tilkynning hefur verið send viðskiptavini um vanefndir á samningi.

Komi til greiðsludráttar af hálfu viðskiptavinar, áskilur Netters sér rétt til þess að reikna dráttarvexti á þá fjárhæð sem vangoldin er, í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Til verulegra vanefnda af hálfu viðskiptavinar teljast eftirfarandi atvik:

  • Greiðsludráttur í meira en 30 daga frá því greiðsluáskorun var send.

  • Vanefnd af hálfu viðskiptavinar sem varir í meira en 30 daga frá tilkynningu Netters um vanefndina.

  • Brot á ákvæðum 5.2 eða 5.3.

  • Ef búnaður er notaður á annan hátt en notkunarskilmálar kveða á um.

 

Ef um verulegar vanefndir er að ræða af hálfu viðskiptavinar er Netters heimilt að grípa til allra þeirra ráðstafana sem eru heimilar samkvæmt lögum, þ.m.t. að rifta samningi einhliða og innheimta allar gjaldfallnar skuldir.

Við riftun samnings skal viðskiptavinur hætta öllum notum á hugbúnaði og afmá hann af öllum vélbúnaði. Öllum gögnum sem tilheyra hugbúnaðinum skal strax skilað til Netters.

 

16. Trúnaðarskylda

Netters skal gæta fyllsta trúnaðar varðandi gögn og málefni viðskiptavinar og viðskiptamanna hans. Samningar aðila eru trúnaðarmál milli þeirra.

Viðskiptavinur er bundinn trúnaðarskyldu um málefni Netters sem hann fær vitneskju um.

Trúnaðarskylda beggja aðila helst eftir að samningi þeirra lýkur.

 

17. Persónuvernd

Vinnsla persónuupplýsinga er í samræmi við við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og í samræmi við persónuverndarstefnu Netters.

 

18. Framsal

 

Viðskiptavini er óheimilt að framselja réttindi sín eða skyldur samkvæmt samningum hans við Netters til þriðja aðila.

19. Varðveisla gagna

Netters varðveitir ekki gögn viðskiptavinar eða annarra aðila eftir að samningi lýkur. Viðskiptavinur skuldbindur sig sjálfur til þess að taka afrit af gögnum sínum áður en til loka samnings kemur.

20. Gjaldþrot

Við gjaldþrot viðskiptavinar falla samningar hans við Netters sjálfkrafa úr gildi. Verði viðskiptavini eða Netters veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamninga, er uppsagnarfrestur Netters til að segja samningum upp 7 dagar frá því að tilkynning um framangreint berst Netters.

21. Lög og varnarþing

Um samninga Netters og viðskiptavina gilda íslensk lög. Ágreiningi sem kann að rísa þeirra á milli skal vísa til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Netters ehf.

Ármúli 1 | 108 Reykjavík | Ísland

Sími: +354 517-1617

Farsímar: 699-0500, 869-8575, 859-1040

Netfang: netters@netters.is

Kennitala: 640413-0690

Almennir viðskiptaskilmálar Netters ehf.

  • Instagram
  • Netters á Facebook
  • Netters á Linkedin
  • Netters á Twitter